Innlent

Bókaútgáfa greiði 25 milljóna sekt

Merki Forlagsins
Samkeppniseftirlitið segir Forlagið hafa gert upp á milli bóksala með afsláttarkjörum og auk þess brotið bann við birtingu smásöluverðs á bókum.
Merki Forlagsins Samkeppniseftirlitið segir Forlagið hafa gert upp á milli bóksala með afsláttarkjörum og auk þess brotið bann við birtingu smásöluverðs á bókum.
Bókaútgáfunni Forlaginu er gert að borga 25 milljóna króna sekt fyrir brot á banni við birtingu smásöluverðs bóka og banni við því að mismuna bóksölum með afsláttarkjörum.

Forlagið varð til 2008 með samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. Þegar Samkeppniseftirlitið skoðaði samrunann setti Forlagið fram hugmyndir að skilyrðum til að ryðja burt samkeppnishindrunum.

„Í júlímánuði síðastliðnum komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Forlagið hefði brotið gegn þessum skilyrðum,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Forlagið krafðist þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá í júlí yrði felld úr gildi, meðal annars vegna þess að staða Forlagsins sem bókaútgáfu væri veikari en við samrunann á árinu 2008 og forsendur sáttarinnar frá því þá breyttar. Sektin væri óhófleg því meint brot hafi verið framið af gáleysi.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest brot Forlagsins og að 25 milljóna króna sekt sé hæfileg. „Orð og athafnir Forlagsins bendi til þess að fyrirtækið hafi ekki tekið umrædd skilyrði alvarlega,“ vitnar Samkeppniseftirlitið til áfrýjunarnefndarinnar. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×