Innlent

Skýrslan kveikir enga elda

SB skrifar
Hörður Torfason á góðri stund á Austurvelli.
Hörður Torfason á góðri stund á Austurvelli.

Söngvaskáldið Hörður Torfason segir lítinn hita í fólki vegna rannsóknarskýrslunnar. Sjálfur ætlar hann í ræktina í dag auk þess sem hann sinnir frágangi vegna fundarhaldanna frægu á Austurvelli.

"Ég fylgdist með blaðamannafundinum í morgun og hef svo verið að ræða við fólk, flestir yppta bara öxlum," segir Hörður sem greinir áhugaleysi hjá almenningi, ekki sé líklegt að búsáhöldin frægu verði dregin fram í dag þrátt fyrir stórfréttir úr rannsóknarskýrslunni.

"Þetta er álitleg skýrsla og vel skrifað en það er lítið þarna sem ekki var vitað fyrir. Þetta er staðfesting á því sem heilbrigð skynsemi sagði manni og örugglega eiga einhverjir eftir að hlaupa til og mótmæla, það er fullt af fólki sem mótmælir öllu til að mótmæla."

Sjálfur ætlar Hörður að taka því rólega í dag. Fara í ræktina og sinna föður sínum. Hann býst ekki við að taka upp gítarinn og semja rannsóknarskýrslulag enda ekki mikill hljómgrunnur fyrir pólitískri list.

"Ég var með tónleika á fimmtudagskvöld með lögum innblásnum af atburðunum á Austurvelli. Það mættu um 30 manns þannig að þetta virðist ekki efni sem kveikir í fólki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×