Viðskipti erlent

Um 1.500 viðskiptavinir vildu verða andlit Iceland

Um 1.500 viðskiptavinir Iceland lágvörukeðjunnar vildu verða andlit hennar út á við í nýrri auglýsingaherferð sem hefst síðar í ár. Búið er að velja 56 manns úr þessum hóp og í dag verður lokahópurinn valinn, að því er segir í frétt í Daily Star.

Eins og kunnugt er af fréttum er Iceland nú að mestu, eða 79%, í eigu Íslendinga og þar af er eignarhlutur Landsbankans 69%.

Fram að þessu hefur Iceland notað þekkta Breta sem andlit sitt og gegnir sjónvarpsstjarnan Coleen Nolan stöðunni í augnablikinu. Hún tók við af poppstjörnunni Kerry Katona eftir að sú lenti í kókaínhneyksli.

Andlit úr lokahópnum í dag verða sett inn á vefsíðu Iceland í næsta mánuði og þar mun verða kosið á milli þeirra um stöðuna.

Forráðamenn Iceland ákváðu að hætta að hafa frægan einstakling sem andlit sitt og velja frekar einn af viðskiptavinum sínum. Þar með telja þeir að viðskiptavinirnir sjálfir hafi meir að segja um stefnu keðjunnar og markaðssetningu hennar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×