Innlent

Biskup vill að söfnuðir kaupi rannsóknarskýrsluna

Karl Sigurbjörnsson.
Karl Sigurbjörnsson.
Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, hefur sent prestum og djáknum bréf þar sem hann hvetur til þess að söfnuðir kaupi eintak af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og láti liggja frammi í safnaðarheimilum. Í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni segir að þar geti sóknarbörn nálgast hana og lesið í henni og mælst er til þess að boðið verði upp á kaffi og auglýstar sérstakar samverustundir þar sem unnt verði að ræða skýrsluna.

Í bréfi biskups segir segir meðal annars að oft hafi verið rætt um mikilvægi þess að bjóða safnaðarheimilin fram sem opinn vettvang samtals um siðferði og samfélag, hér gefist tækifæri til þess og að stuðla að samræðu um þessa atburði á öruggum vettvangi. „Ýmsir kvíða skýrslunni og gætu viljað koma til kirkju til að tjá sorg sína og gera bæn sína í helgidóminum. Við skulum bjóða upp á slíkt og auglýsa viðveru prests og/eða djákna þar til bænar og sálgæslu," segir biskup meðal annars.

„Útkoma þessarar skýrslu hefur verið sögð einhver verstu tíðindi sem nokkur nefnd hefur flutt þjóðinni. Margir bera því ugg í brjósti vegna þessa og ekki síður vegna þess hvernig farið verður með þessi tíðindi og unnið úr þeim," segir einnig í bréfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×