Erlent

Búist við langvarandi átökum í Taílandi

Hreinsað til í Bangkok Spenna var yfir borginni í gær þótt ró væri komin á. nordicphotos/AFP
Hreinsað til í Bangkok Spenna var yfir borginni í gær þótt ró væri komin á. nordicphotos/AFP

Óttast er að pólitísku átökin á Taílandi brjótist fram með misalvarlegum hætti næstu árin, þótt kyrrð hafi komist á í gær eftir heiftarlegar óeirðir í höfuðborginni Bangkok á miðvikudag.

Ríkisstjórnin sagðist í gær hafa náð tökum á ástandinu, en rauðliðar heita því að halda mótmælunum gegn stjórninni áfram þótt sumir þeirra hafi verið fluttir í fangelsi.

„Ég held að þetta sé nýtt upphaf fyrir rauðliða,“ segir Kevin Hewison, sérfræðingur um Taíland hjá Norður-Karólíuháskóla í Bandaríkjunum. „Fram undan er harkalegra og grimmilegra tímabil baráttu og ómarkvissari aðgerða. Það er ekki með nokkru móti hægt að sjá fyrir sér að þessu sé að ljúka.“

Herinn réðst á miðvikudagsmorgun til atlögu gegn mótmælendum, sem höfðu komið sér upp búðum í miðborg Bangkok. Leiðtogar mótmælanna tóku ákvörðun um að gefast upp, en þrátt fyrir það blossuðu upp óeirðir í borginni með dauðsföllum og íkveikjum.

Fimmtán manns létu lífið á miðvikudag og yfir hundrað særðust. Alls var kveikt í 40 byggingum, þar á meðal bönkum, kvikmyndahúsi og stórri verslunarmiðstöð.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×