Innlent

Stórhættulegar slysagildrur á Klukkuvöllum

SB skrifar

Íbúar á Klukkuvöllum í Hafnarfirði hafa ítrekað kvartað undan slæmum frágangi á byggingarlóðum í götunni. Eftir hrunið hafa húsgrunnar staðið ókláraðir, byggingarkranar eru orðin leiktæki krakkana í hverfinu og stór gryfja þar sem blokk átti að rísa er nú slysagildra við hlið leikskóla. Og fyrir ofan götuna má sjá glitta í ljósastaura og gangstéttir - en engin hús.

Í bréfi frá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar segir að heilbrigðiseftirlitinu hafi borist símhringing frá áhyggjufullum foreldrum í götunni. „Ýmsar slysahættur eru á svæðinu eins og opnir grunnar, óvarin steinsteypujárn sem standa upp úr sökklum, fjölbýlishús með vinnupalla á fleirum hæðum sem standa óvarðir og byggingarkranar annað hvort liggjandi eða uppistandandi og eru notaðir sem leikvangur fyrir krakkana á svæðinu."



Í bréfinu segir jafnframt að sést hafi til ungra stráka klifra í vinnupöllum á 4 hæð og fyrr í vor hafi 6 ára stúlka klifrað hátt upp í einn kranana sem stendur í götunni."

Heilbrigðiseftirlitið gerir athugasemdir við ástandið í götunni og er byggingastjóra gert að bregðast við innan fjögurra vikna annars verði dagsektum gert.

Fréttastofa ræddi við Hákon Varmar, fjölskylduföður sem býr í blokk í Klukkubergi. Hann segir íbúa reiða og vilji aðgerðir.

„Þetta er búið að standa svona í rúmlega tvö ár og við viljum að það sé eitthvað gert í þessu. Það eru ekki einu sinni gangstéttir hérna og börnin þurfa að fara út á götu til að komast leiðar sinnar. Við viljum að bærinn geri eitthvað í þessu."

Spurður hvernig verktakarnir á svæðinu hafi brugðist við athugasemdum íbúanna segir Hákon:

„Það hefur verið skotið í kafi um leið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×