Ragnheiður Tryggvadóttir: Að rótum vandans Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 20. maí 2010 06:00 Undanfarin kvöld hef ég dundað mér í garðinum heima en hann er í hálfgerðri órækt. Grasflötin mosavaxin vegna skuggans af allt of stórum trjánum í kring sem hafa fengið að vaxa óáreitt í áratugi og beðin vaðandi í illgresi. Kerfillinn æðir yfir páskaliljurnar og kaffærir allt sem á vegi hans verður. Hann hefur meira að segja brotið sér leið upp um malbikið á bílastæðinu utan við grindverkið, svo mikil er gróskan. Kerfillinn er óvelkominn gestur í garðinum mínum og frekur eins og ofdekraður útrásarvíkingur. Ég hef reynt að tjónka við hann með litlum árangri þó þar sem tíminn sem ég hef til að sinna garðverkum takmarkast við hálftíma hér og hálftíma þar. Hann hefur því í fullu tré við mig og á hverjum morgni sýnist mér kerfillinn hafa dreift sér víðar, hækkað, stækkað og lagt undir sig fleiri vesælar liljur. Ég leitaði mér því ráða á vefsíðu hvernig ráða mætti niðurlögum kerfilsins og las þar það sem ég vissi að hann er erfiður að eiga við. Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar er kerfillinn sagður reskitegund, sem þýðir víst að hann þrífist í vel röskuðu landi. Hann er hraðvaxta og duglegur í samkeppni við annan gróður. Til að ráða niðurlögum hans væri helst til ráða að beita á hann sauðfé! Alin upp á bóndabæ ættu mér að vera hæg heimatökin að fá kind í garðinn. Ég er þó hrædd um að kindin yrði óáreiðanlegur bandamaður sem léti ekki staðar numið við kerfilinn heldur kroppaði garðinn allan niður í svörð. Ég hef líka íhugað að semja frið við þennan óvin minn. Láta eins og við deilum garðinum í sátt og að kerfillinn sé þarna rétt eins og hver önnur nytjajurt. Það ku víst vera gott að baka úr honum brauð! Eftirlátssöm yrði ég þá að tipla í kringum hann og þykjast ekki sjá hvernig hann reigir sig enn hærra en í gær. Yfirgangurinn í honum er þó einfaldlega orðinn óþolandi og ekki um það að ræða að hann fái að sölsa undir sig blettinn átakalaust. Við nánari lestur á heimasíðunni góðu segir að kerfillinn myndi ekki langlífan fræforða, sem ég gef mér að þýði að hann sé hálfgerður ræfill þegar upp er staðið. Þar segir einnig að ef rætur náist upp ætti björninn að vera unninn. Vopnuð stunguspaða mun ég því ráðast að rótum vandans í kvöld og vonandi hafa sigur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Umgengnistálmanir – brot á réttindum barna Einar Hugi Bjarnason Skoðun Takk starfsfólk og forysta ÁTVR Siv Friðleifsdóttir Skoðun Meðsek um þjóðarmorð vegna aðgerðaleysis? Pétur Heimisson Skoðun Eldra fólk, þolendum ofbeldis oft ekki trúað Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Þjóðarmorðið í Palestínu Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Tóbakslaust Ísland! - Með hjálp stefnu um skaðaminnkun Bjarni Freyr Guðmundsson Skoðun Ytra mat í skólum og hvað svo? Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Tölfræði og raunveruleikinn Jón Frímann Jónsson Skoðun Tími ábyrgðar í útlendingamálum – ekki uppgjafar Friðþjófur Helgi Karlsson Skoðun Sorglegur uppgjafar doði varðandi áframhaldandi stríðin í dag Matthildur Björnsdóttir Skoðun
Undanfarin kvöld hef ég dundað mér í garðinum heima en hann er í hálfgerðri órækt. Grasflötin mosavaxin vegna skuggans af allt of stórum trjánum í kring sem hafa fengið að vaxa óáreitt í áratugi og beðin vaðandi í illgresi. Kerfillinn æðir yfir páskaliljurnar og kaffærir allt sem á vegi hans verður. Hann hefur meira að segja brotið sér leið upp um malbikið á bílastæðinu utan við grindverkið, svo mikil er gróskan. Kerfillinn er óvelkominn gestur í garðinum mínum og frekur eins og ofdekraður útrásarvíkingur. Ég hef reynt að tjónka við hann með litlum árangri þó þar sem tíminn sem ég hef til að sinna garðverkum takmarkast við hálftíma hér og hálftíma þar. Hann hefur því í fullu tré við mig og á hverjum morgni sýnist mér kerfillinn hafa dreift sér víðar, hækkað, stækkað og lagt undir sig fleiri vesælar liljur. Ég leitaði mér því ráða á vefsíðu hvernig ráða mætti niðurlögum kerfilsins og las þar það sem ég vissi að hann er erfiður að eiga við. Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar er kerfillinn sagður reskitegund, sem þýðir víst að hann þrífist í vel röskuðu landi. Hann er hraðvaxta og duglegur í samkeppni við annan gróður. Til að ráða niðurlögum hans væri helst til ráða að beita á hann sauðfé! Alin upp á bóndabæ ættu mér að vera hæg heimatökin að fá kind í garðinn. Ég er þó hrædd um að kindin yrði óáreiðanlegur bandamaður sem léti ekki staðar numið við kerfilinn heldur kroppaði garðinn allan niður í svörð. Ég hef líka íhugað að semja frið við þennan óvin minn. Láta eins og við deilum garðinum í sátt og að kerfillinn sé þarna rétt eins og hver önnur nytjajurt. Það ku víst vera gott að baka úr honum brauð! Eftirlátssöm yrði ég þá að tipla í kringum hann og þykjast ekki sjá hvernig hann reigir sig enn hærra en í gær. Yfirgangurinn í honum er þó einfaldlega orðinn óþolandi og ekki um það að ræða að hann fái að sölsa undir sig blettinn átakalaust. Við nánari lestur á heimasíðunni góðu segir að kerfillinn myndi ekki langlífan fræforða, sem ég gef mér að þýði að hann sé hálfgerður ræfill þegar upp er staðið. Þar segir einnig að ef rætur náist upp ætti björninn að vera unninn. Vopnuð stunguspaða mun ég því ráðast að rótum vandans í kvöld og vonandi hafa sigur.