Innlent

Mál Ásbjörns rætt í nefndinni

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, telur ekki að brot Ásbjörns eigi að hafa áhrif á stöðu hans, hann hafi bætt fyrir það sem misfórst. Fréttablaðið/pjetur
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, telur ekki að brot Ásbjörns eigi að hafa áhrif á stöðu hans, hann hafi bætt fyrir það sem misfórst. Fréttablaðið/pjetur

Formaður nefndar alþingismanna, sem ætlað er að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, gerir ráð fyrir að mál Ásbjörns Óttarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, verði rætt í nefndinni.

Þangað til vill formaðurinn, Atli Gíslason, ekki ræða málið í fjölmiðlum.

Ásbjörn Óttarsson situr í nefndinni, en hann hefur viðurkennt að hafa brotið lög þegar hann greiddi sér og konu sinni tuttugu milljónir króna í arð árið 2007.

Næsti fundur nefndarinnar er á þriðjudag. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar í nefndinni, hvatti Ásbjörn í Kastljósinu í gær til að sýna gott fordæmi og víkja úr nefndinni á meðan mál hans er skoðað.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur ekki haft tíma til að kynna sér mál Ásbjörns, segir saksóknari efnahagsbrotadeildar, Helgi Magnús Gunnarsson. Embættið hafi því ekki myndað sér skoðun á málinu. „Það er til refsiheimild ef menn brjóta gegn reglum um útgreiðslu arðs, en ég hef ekki aflað mér gagna til að sannreyna neitt og get því ekki tjáð mig um þetta,“ segir Helgi Magnús.

Eins og fram hefur komið í blaðinu segist Ásbjörn hafa brotið lögin óviljandi og óvitandi. Hann hafi endurgreitt féð með vöxtum. Ekki náðist í Ásbjörn í gær. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×