Lífið

Yngstu leikhústæknimenn landsins

 Ásgrímur Gunnarsson og Auðunn Lúthersson eru aðeins sextán og sautján ára gamlir.
Ásgrímur Gunnarsson og Auðunn Lúthersson eru aðeins sextán og sautján ára gamlir. Fréttablaðið/stefán

Leikritið Sellófan, eftir Björk Jakobsdóttur, var frumsýnt í Iðnó á fimmtudaginn var og vakti ungur aldur tæknimanna sýningarinnar nokkra athygli sýningargesta.

Frændurnir Ásgrímur Gunnarsson og Auðunn Lúthersson sjá um hljóð- og tæknivinnu fyrir sýninguna en þeir eru aðeins sextán og sautján ára gamlir. Þeir hafa þó ekki langt að sækja hæfileikana því auk þess að hafa verið viðriðnir leikhúsheiminn um hríð er Ásgrímur sonur leikkonunnar Bjarkar Jakobsdóttur og leikarans Gunnars Helgasonar. „Þetta er mjög skemmtilegt starf. Við lentum reyndar í smá óhappi á frumsýningunni þegar leikkonan gleymdi nokkrum línum sem gerði okkur mjög stressaða. Við náðum þó að redda okkur með því að vera fljótir að hugsa,“ segir Ásgrímur, en þetta er í fyrsta sinn sem þeir félagar taka að sér tæknivinnu sem þessa.

„Þetta er alveg ótrúlega spennandi starf og það er alltaf gaman að fá að vinna í leikhúsi og fylgjast með leikurum að starfi. Við erum báðir með brennandi áhuga á leiklist og það er frábært að fá að skyggnast svolítið á bak við tjöldin. Þetta er mikil ábyrgð en við erum tveir saman í þessu sem gerir þetta auðveldara,“ útskýrir Auðunn.

Á veturna stunda frændurnir nám við Verslunarskólann og Menntaskólann í Reykjavík en í sumar starfa þeir báðir við Götuleikhúsið. Aðspurðir segjast þeir alltaf hafa haft mikinn áhuga á leiklist. „Maður fær góða útrás fyrir þessari athyglissýki hér í Götuleikhúsinu og við stefnum báðir að því að fara í leiklistarnám í framtíðinni,“ segir Auðunn að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×