Fastir pennar

Ásælni óskast

Pawel Bartoszek skrifar
Ég fæ æluflog í hvert skipti sem ég heyri þá orðnotkun að einhverjir útlendingar ásælist íslenskar auðlindir, fyrirtæki, eða eitthvað annað sem íslenskt er. Í fyrsta lagi vegna þetta er ekki satt og í öðru lagi myndum við gjarnan vilja að það væri það. Við þurfum einfaldlega fleiri erlendar fjárfestingar, erlend fyrirtæki, erlent fagfólk og þá reynslu sem öllu þessu fylgir.



Forsíðufréttir af baksíðufréttum

Við spilum öll eðlilega stórt hlutverk í eigin lífi. Það er hins vegar ákveðin geðröskun að halda að maður spili jafnstórt hlutverk í lífi allra annarra, að aðrir séu uppteknir af því sem maður er að gera og því hvað manni finnst. Flestum öðrum er nefnilega slétt sama.

Ég bjó í Danmörku á þeim tíma sem Íslendingar voru „að kaupa upp allt" í Danmörku eins og það gjarnan var orðað. Vissulega var eitthvað um fréttir af fjárfestingum Íslendinga í þarlendum fjölmiðlum, en áhugi Íslendinga og íslenskra fjölmiðla á þessum áhuga var áreiðanlega margfalt meiri heldur áhugi Dana. Það getur nefnilega varla verið til merkis um að maður sé á allra vörum, ef fréttaflutningur af manni þykir fréttnæmur í sjálfu sér. Einhvern veginn efast ég um að New York Times sé fullt af fréttum af því að minnst hafi verið á New York í dönsku dagblaði.

Fréttafréttirnar verða líka misáberandi eftir því hvert viðfangsefnið er. Sigur Besta flokksins vakti líka ákveðna athygli í þeim erlendum vefmiðlum sem ég þekki til, en minna hefur borið á endursögnum þeirra frétta á Íslandi. Enda er línan í þeim fréttum einfaldlega sú að íslenskir kjósendur hefðu misst vitið.

Við þurfum að sjá okkur í réttu ljósi. Til að hafa sterka sjálfsmynd þarf maður fyrst að hafa rétta sjálfsmynd og svo rétta mynd af skoðun annarra á manni sjálfum. En það sem við fáum er Icelandair auglýsing sem spilar einmitt inn á eitthvað þveröfugt, hún sýnir útlendinga að segja hluti um okkur sem við gjarnan vildum að þeir segðu.



Vondir útlenskir peningar

Ótti við erlendar fjárfestingar er rótgróinn hér sem víða annars staðar. Einhvern veginn líður mönnum betur að vita af því að sá sem á fyrirtæki hafi tengsl við landið, útlendingurinn blóðmjólkar bara kúna og fer, hugsa menn. Veruleikinn virðist ekki styðja þennan þankagang.

Hrunið var alíslenskt, íslenskir bankar í eigu Íslendinga fóru á hliðina og tóku önnur íslenski fyrirtæki í eigu Íslendinga með sér.

Meira erlent fjármagn hefði getað dempað dóminóáhrifin.

Venjulegir kapítalistar hugsa bara um að hámarka eigin hagnað, en ekki eitthvað annað, þó svo þeir geti spilað inn á ótta við erlent fjármagn og útlendinga þegar það hentar þeim. Íslenskir útvegsmenn eru þannig andvígir erlendri eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum, og hefur þeim tekist að binda þennan ótta við útlenska peninga í landslög. Að sjálfsögðu hefur þessi afstaða útvegsmanna ekkert að gera með velferð íslensku þjóðarinnar. Ef fjárfestingahöft í sjávarútvegi yrðu afnumin myndi það einfaldlega þýða að einhverjir sem eru hæfari til að reka sjávarútvegsfyrirtæki gætu eignast þau. Það vilja sérhagsmunaaðilarnir ekki.

Við höfum ekki efni á því að vera rasískir gagnvart erlendum fjárfestingum og sérstaklega getum við ekki sífellt lagst gegn því að útlendingar fjárfesti í þeim hlutum sem vit er í að fjárfesta hér á landi. Það finnst kannski mörgum fínt að einhver útlendingurinn byggi hér hótel eða Formúlu-1 braut. En að menn ætli sér að kaupa fiskitogara eða orkufyrirtæki? Skamm, skamm.



Eins og í útlöndum

Leiðin út úr kreppunni á ekki að liggja í átt að lokuðu sjálfþurftarsamfélagi. Við verðum að byggja upp alþjóðlegra samfélag.

Ég vil sjá erlenda banka, eins og Danske Bank og Deutsche Bank opna útibú á Íslandi. Ég vil sjá Aldi, Netto og Lidl í samkeppni við íslenskar matvörukeðjur. Ég vil sjá Ryanair og Easyjet fljúga til Íslands. Ég vil að Magasin du Nord og H&M opni í miðbænum.

Það er komið nóg af því að menn berji sér í brjóst og hrópi hátt: „við getum gert þetta sjálf", þegar sannleikurinn er sá að við getum það líklegast ekki.








×