Viðskipti erlent

Kreppan bítur fast í spilavítin í Las Vegas

Kreppan hefur bitið sig fast í spilavítin í Las Vegas. Atvinnuleysi í borginni er hið mesta í Bandaríkjunum eða 14,7% og nú hefur enn eitt stórspilavítið tilkynnt lokun með uppsögnum 400 starfsmanna.

Ástandið er litlu skárri í ríkinu Nevada þar sem Las Vegas er staðsett. Þar er atvinnuleysi 14,4% en það var aðeins 3,8% fyrir áratug síðan.

Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no segir að sérfræðingar búist við því að þetta ástand verði viðvarandi í Las Vegas næstu þrjú árin. Fyrir utan spilavítin hefur orðið hrun í byggingargeir borgarinnar en hann hefur skapað næstflest störfin í borginni á eftir spilavítunum.

Nýjast stórspilavítið til að loka dyrum sínum og senda starfsfólkið heim var Plaza Hotel and Casino.

Oscar B. Goodman borgarfulltrúi í Las Vegas segir að venjulega verða borgin einna fyrst fyrir barðinu á kreppum í Bandaríkjunum en á móti sé borgin líka yfirleitt fyrst til að vinna sig út úr þeim. Nú er staðan öðruvísi og ekkert sem bendi til að borgin muni ná sér á strik að nýju í nánustu framtíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×