Fótbolti

Pellegrini: Sóknarleikurinn var of hægur hjá okkur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Manuel Pellegrini.
Manuel Pellegrini. Nordic photos/AFP

„Þetta voru ekki góð úrslit þar sem við töpuðum og náðum ekki að skora útivallarmark en þetta er enginn heimsendir. Ég er sannfærður um að lið mitt nái að snúa taflinu við," sagði Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Real Madrid, eftir 1-0 tap liðs síns í fyrri leiknum gegn Lyon í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Real Madrid var langt frá sínu besta og heimamenn í Lyon komu gestunum hvað eftir annað í vandræði og Pellegrini tók ekkert af leikmönnum Lyon í leikslok.

„Þeir spiluðu mjög fast og hlupu mikið og náðu að valda okkur miklum erfiðleikum. Sóknarleikurinn var of hægur hjá okkur og það vantaði að við myndum ná að brjóta þetta betur upp með hröðum sóknum. Þetta þurfum við að laga fyrir seinni leikinn," sagði Pellegrini.

Seinni leikur liðanna fer fram á Santiago Bernabeu-leikvanginum 10. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×