Viðskipti erlent

Um 60% Dana vilja stunda bankaviðskipti gegnum farsíma

Um 60% Dana undir þrítugsaldri vilja stunda bankaviðskipti sín í gegnum farsíma.

Þetta er niðurstaða nýrrar könnunnar sem Loyalty Group hefur gert og sagt er frá í fréttabréfinu Finans. Könnunin náði til 2.500 viðskiptavina dönsku bankanna.

Niðurstöður hennar benda til að innan fárra ára muni persónulega bankaþjónusta í gegnum útibú heyra sögunni til í Danmörku.

Í ljós kom að 78% af þeim sem tóku þátt í könnuninni vilja heldur nota tölvur sínar til að stunda dagleg bankaviðskipti heldur en að fara í útibú sín til þess. Því betri aðgangur sem þeir hafa í gegnum netbanka því meiri ánægja ríkir í garð bankans.

Mikkel Korntved forstjóri Loyalty Group segir að það sé ekki lengur fjöldi útibúa sem ráði því hvort Danir séu ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá í bönkum sínum. Þeir óska í auknum mæli eftir sveigjanleika og að hafa auðveldan aðgang að bankaviðskiptum sínum hvenær sem er að degi eða nóttu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×