Viðskipti erlent

Þýskaland og Sviss á leið í skattastríð

Þýsk stjórnvöld hafa lýst yfir áhuga sínum á því að taka tilboði tölvusérfræðings sem hefur boðið þeim lista með nöfnun 1.500 Þjóðverja sem eiga leynilega reikninga í svissneskum bönkum. Þetta hefur vakið nokkuð hörð viðbrögð af hálfu svissneskra stjórnvalda.

Fjallað er um málið á vefsíðunni e24.no. Þar segir að tölvusérfræðingurinn krefjist þess að fá rúma 4 miljarða kr. fyrir listann. Á móti kemur að upplýsingarnar gætu aukið skatttekjur Þýskalands um 16 milljarða kr.

Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur sagt opinberlega að þýsk stjórnvöld hafi áhuga á að kaupa listann svo framarleg sem hann sé ekta.

Þetta hefur vakið hörð viðbrögð í Sviss. Hans-Rudolf Merz fjármálaráðherra Sviss segir að svissnesk stjórnvöld muni ekki veita neina aðstoð í máli sem byggir á stolnum upplýsingum.

Þess má geta að árið 2008 keyptu þýsk stjórnvöld upplýsingar um viðskiptavini banka í Liechtenstein og segir talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins að sömu vinnubrögð yrðu notuð ef listinn frá Sviss verður keyptur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×