Viðskipti erlent

Spánn er ekki í fjárhagsvanda

José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, segir Spánverja ekki vera á vonarvöl efnahagslega eins og orðrómur hafi verið um í fjölmiðlum að undanförnu. Þvert á móti hafi leiðtogafundur ESB samþykkt að öll aðildarríki sambandsins færu sömu leið og Spánverjar til að auka trú markaðarins á efnahagslífi Evrópu.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti tók undir það, að Spánn eigi ekki í vanda. Um það séu allir 27 leiðtogar Evrópusambandslandanna sammála: „Við teljum engan vanda vera á ferðinni, og það er sameiginleg greining okkar allra."

Seðlabanki Spánar ákvað á miðvikudag að allar helstu fjármálastofnanir landsins skuli ganga í gegnum áreynslupróf. Það próf verði gagnsætt og niðurstöðurnar gerðar opinberar. Á leiðtogafundi ESB í gær sagði Zapatero að orðrómur hafi verið í alþjóðlegum fjölmiðlum um að Spánn stæði illa fjárhagslega. Þetta væri rangt. Fjölmiðlar og fjármálamarkaðurinn ættu að hlusta frekar á spænsk stjórnvöld í stað þess að eltast við óstaðfestar fréttir.

„Leiðtogafundurinn samþykkti einróma á fundi sínum í gær að fara sömu leið og spænski seðlabankinn ákvað að fara. Allar helstu fjármálastofnanir aðildarríkjanna 27 verða settar í áreynslupróf. Það ferli verður opið og niðurstöðurnar gerðar opinberar," sagði spænski forsætisráðherrann. Niðurstöður þessa áreynsluprófs ættu að liggja fyrir seinni partinn í júlí.

Zapatero á fund með Dominique Straus-Khan, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í dag. Þegar hann var spurður hvort tilgangur fundarins væri að leita aðstoðar sjóðsins sagði hann að um reglubundinn samráðsfund væri að ræða. „Enda hefur Spánn allt frá upphafi kreppunnar ekki þurft að leggja fjármálastofnunum til stórar fjárhæðir eins og mörg önnur ríki hafa þurft að gera, nema í undantekningartilfellum varðandi nokkur mjög smá fjármálafyrirtæki. Þvert á móti hefur Spánn lagt öðrum þjóðum eins og Grikkjum lið með fjárframlögum," sagði Zapatero í Brussel í gær.

- hmp










Fleiri fréttir

Sjá meira


×