Sport

Ragnheiður komin inn á HM í Dúbæ eins og Hrafnhildur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Ragnarsdóttir
Ragnheiður Ragnarsdóttir Mynd/Valli
Sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR náði lágmarki inn á HM í Dúbæ um helgina þegar hún synti fyrsta sprett KR í 4 x 50 metra boðsundi á Vormóti Breiðabliks.

Ragnheiður synti á 25,45 sekúndum og er því komin með keppnisrétt í 50 metra skriðsundi á HM í 25 metra laug sem fer fram í Dúbæ í Sameinuðu Arabísku furstadæmunum 15. til 19. desember.

Ragnheiður er greinilega í flottu formi þessa dagana því helgina á undan vann hún tvö gull og setti mótsmet í 100 metra skriðsundi á alþjóðlegu sundmóti i Braunschveig í Þýskalandi.

Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH er einnig komin með keppnisrétt á HM í Dúbæ en hún náði lágmarkinu á dögunum í 100 metra bringusundi þegar hún synti á 1:09,06 á Páskamóti SH.

Bæði Ragnheiður og Hrafnhildur eru einnig komnar með þátttökurétt á EM í 25 metra laug sem fer fram 25. til 28. nóvember en það er ekki búið að ákveða hvar það mót fer fram.

Það er ekki víst hvort að þær komist á bæði þessi mót þar sem svo stutt er á milli þeirra en ákvörðun um það verður tekin þegar nær dregur.

Næsta stórmót er EM í 50 metra laug í Búdapest í Ungverjalandi og eins og er aðeins Jakob Jóhann Sveinsson kominn með keppnisrétt þar. Ragnheiður og Hrafnhildur hafa enn tíma til þess að ná lágmörkunum þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×