Innlent

Gagnrýndu dagskrá Alþingis

Þingmenn Hreyfingarinnar. Birgitta, Margrét og Þór.
Þingmenn Hreyfingarinnar. Birgitta, Margrét og Þór.
Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýndu dagskrá Alþingis við upphaf þingfundar í dag. Eitt mál var á dagskrá, umræða um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, sagði nær ógerlegt fyrir þingmenn að kynna sér innihald skýrslunnar sem kom út í gær nægilega vel.

„Það eru einmitt svona vinnubrögð sem komu okkur á kaldan klaka," sagði Margrét Tryggvadóttir. Þá óskaði Þór Saari eftir því að tveir dagar verði teknir undir umræðu um skýrsluna í næstu viku.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, fór fram á að forseti Alþingis myndi hvetja sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar til að vera viðstadda umræðuna. Ábyrgð þessara flokka væri mikil.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, benti á að Alþingi ætti eftir að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar á næstu misserum. Þingmenn læsu nú skýrsluna og að margir þeirra hefðu huga á að flytja ræður sínar á morgun um efni hennar. Þá sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að umræðan væri mikilvæg og að það væri skylda allra þingmanna að taka þátt í henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×