Viðskipti erlent

Fleiri samningar til að koma í veg fyrir skattsvik

Norðurlöndin hafa gert upplýsingaskiptasamninga um skattamál við St.Vincent og Grenadineyjar, St. Kitts og Nevis. Samningurinn er liður í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar með það að markmiði að koma í veg fyrir skattaundanskot.

Fjallað er um málið á vefsíðunni norden.org. Þar segir að upplýsingaskiptasamningurinn mun veita norrænum skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um alla einstaklinga sem reyna að komast hjá því að greiða skatt af tekjum og fjárfestingum. Að auki auðveldar samningurinn aðgang að innstæðum sem ekki hafa verið gefnar upp í heimalandinu.

Með undirritun samnings við Norðurlöndin skuldbinda St.Vincent og Grenadineyjar, St. Kitts og Nevis sig til að taka upp staðla OECD um gegnsæi og upplýsingamiðlun á skattasviðinu.

Norrænu rikin gerðu þann 10. mars samning við Bahamaeyjar og áður höfðu fjölmargir sams konar samningar verið gerðir við ríki með svokölluð skattaskjól. Verkefnið verður áfram ofarlegaá forgangslista ráðherranefndarinnar.

Danir hafa á formennskutíma sínum í Norræna ráðherranefndinni 2010 lagt áherslu á áframhaldandi norrænt samstarf til að koma í veg fyrir skattaundanskot. Norðurlöndin hafa samþykkt að halda samstarfinu áfram og er gert ráð fyrir að það standi fram til ársins 2012.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×