Gunnar Rúnar Sigurþórsson var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness klukkan þrjú í dag. Þar var hann úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald sem rennur út 24. september næstkomandi.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni þá er rökstuddur grunur fyrir hendi um að Gunnar eigi aðild að andláti Hannesar. Í kjölfar handtökunnar var gerð ítarleg húsleit á heimili Gunnars og hald lagt á muni sem þar var að finna og tengjast hugsanlega rannsókninni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er morðvopnið hinsvegar ófundið.
Lögreglan getur ekki greint nánar frá þessum nýju gögnum að öðru leyti en því að þau eru árangur vettvangsvinnu tæknideildar lögreglunnar.
Talið er að Hannes Þór Helgason hafi verið myrtur með hnífi.
Gunnar Rúnar sagði ekki orð þegar hann var leiddur inn í Héraðsdóm Reykjaness. Fyrir utan héraðsdóminn biðu fjöldinn allur af fréttamönnum.
Gunnar Rúnar tengist unnustu Hannesar en hann var með henni í grunnskóla. Þá birti hann einlæga ástarjátninu á myndbandsvefnum Youtube þar sem hann játaði ást sína á unnustu Hannesar. Ástin var hinsvegar ekki endurgoldin.
Hægt er að horfa á myndband af Gunnari að játa ást sína til stúlkunnar hér.