Innlent

Reynt að stinga rangan mann

Litið alvarlegum augum Málið hefur verið kært til lögreglu en enginn hefur enn verið handtekinn.Fréttablaðið/pjetur
Litið alvarlegum augum Málið hefur verið kært til lögreglu en enginn hefur enn verið handtekinn.Fréttablaðið/pjetur

Fjórir menn í annar­legu ástandi réðust inn í íbúð í sunnanverðum Hafnarfirði á laugardaginn var vopnaðir hnífum og réðust að húsráðanda sem þar var með ungum syni sínum.

Mennirnir virðast hafa verið að leita að fyrrverandi leigjanda íbúðarinnar og gekk húsráðanda illa að koma þeim í skilning um að hann væri annar maður á milli þess sem hann vék sér undan atlögum mannanna, en tveir reyndu ítrekað að stinga hann í háls og kvið.

Manninum tókst að forða syni sínum frá mönnunum og skömmu síðar virtust þeir átta sig á því að þeir hefðu farið mannavillt og létu sig hverfa.

Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan hefur hóp manna í sigtinu og telur nokkuð víst að árásarmennirnir séu í þeim hópi. Ekki er búið að ná tali af þeim öllum.

Margeir Sveinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Hafnarfirði, segir málið litið mjög alvarlegum augum. „Það gefur augaleið. Við kærum okkur ekki um að það sé verið að æða inn á heimili fólks með svona látum,“ segir hann.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×