Innlent

Kynungabók komin út

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mennta- og menningarmálráðuneytið hefur gefið út Kynungabók, upplýsingarit fyrir ungt fólk um jafnrétti kynja. Markmið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Jafnframt er lagt upp úr því að ritið höfði til ungmenna og að þau geri sér grein fyrir að jafnréttismál varða bæði kynin og eru öllum til hagsbóta. Í ritinu eru hnitmiðaðar upplýsingar úr rannsóknum, gagnagrunnum, lögum og reglugerðum.

Árið 1976 voru fyrstu jafnréttislögin samþykkt þar sem kveðið var á um jafnréttisfræðslu í skólum. Þó að liðin séu 34 ár frá setningu laganna er slík fræðsla ekki enn orðin almenn innan skólakerfisins. Ritið er hugsað sem eftirfylgni við lagaákvæði um jafnréttisfræðslu og er hluti af innleiðingu á nýrri menntastefnu þar sem jafnrétti, lýðræði, sjálfbærni, læsi og sköpun eiga að vera í öndvegi í öllu skólastarfi.

Kynungabók er ætluð ungmennum á bilinu 15-25 ára og á því að ná til nemenda á þremur skólastigum; grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×