Viðskipti erlent

Hlutabréf BP ekki verið lægra skráð í 13 ár

Hlutabréf í olíufélaginu BP hafa haldið áfram að lækka í verði í kauphöllinni í London í morgun. Nemur lækkunin 7% og bætist hún við rúmlega 15% lækkun á markaðinum í New York í gær. Hafa hlutabréfin ekki verið lægra skráð í 13 ár.

Samkvæmt frétt um málið á Reuters hefur skuldatryggingaálagið á BP til fimm ára rokið upp að undanförnu og stendur nú í rúmlega 500 punktum. Hefur álagið hækkað um 250 punkta á tveimur dögum og er því orðið tvöfalt dýrara að tryggja sig gegn greiðsluþroti BP.

Greining Merrill Lynch telur að félagið geti staðið við áætlaðan kostnað við að hreinsa til eftir lekann en þar er um 28 milljarða dollara að ræða. Hinsvegar væri framtíð BP mjög óljós þar sem erfitt er að spá fyrir um annan kostnað sem félagið verður fyrir vegna lögsókna og skaðabótakrafna.

Fram að þessu hefur olíulekinn kostað BP rúmlega 1,4 milljarða dollara eða rúmlega 180 milljarða kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×