Fótbolti

Pálmi Rafn skoraði og fékk rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason í leik með íslenska landsliðinu árið 2008.
Pálmi Rafn Pálmason í leik með íslenska landsliðinu árið 2008. Mynd/Daníel

Pálmi Rafn Pálmason og Indriði Sigurðsson voru á skotskónum með liðum sínum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Pálmi Rafn skoraði eina mark Stabæk er liðið mátti þola 2-1 tap fyrir Haugasund.

Pálmi kom Stabæk yfir á 9. mínútu en Haugesund skoraði tvívegis um miðbik fyrri hálfleiksins og hélt forystunni allt til loka.

Til að bæta gráu á svart fékk Pálmi Rafn sína seinni áminningu í leiknum á 69. mínútu og þar með rautt.

Veigar Páll Gunnarsson var einnig í byrjunarliði Stabæk í dag en var tekinn af velli á 82. mínútu.

Indriði Sigurðsson, leikmaður Viking, skoraði fram hjá félaga sínum í íslenska landsliðinu, markverðinum Árna Gauti Arasyni í dag.

Árni Gautur og félagar í Odd Grenland fögnuðu þó að lokum sigri, 2-1. Indriði jafnaði metin fyrir Viking á 48. mínútu en Odd Grenland endurheimti forystuna aðeins átta mínútum síðar.

Þeir léku báðir allan leikinn, rétt eins og Birkir Bjarnason í liði Viking.

Þá vann Lilleström 3-2 sigur á Brann á sama tíma. Enginn Íslendingur var á skotskónum í þeim leik en Stefán Logi Magnússon og Björn Bergmann Sigurðarson voru báðir í byrjunarliði Lilleström í dag. Björn Bergmann var tekinn af velli á 74. mínútu.

Birkir Már Sævarsson var í byrjunarliði Brann og var tekinn af velli í blálok leiksins. Gylfi Einarsson var á bekknum hjá Brann og kom ekki við sögu en hann er á sínu síðasta tímabili í Noregi og mun spila með Fylki í Pepsi-deild karla á næstu leiktíð.

Það var einnig leikið í norsku B-deildinni í dag. Nybergsund og Bryne gerðu 2-2 jafntefli en Guðmann Þórisson lék allan leikinn með fyrrnefnda liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×