Innlent

Davíð sagðist vilja í stjórn Blómavals

Davíð Oddsson. Gat á sig blómum bætt.
Davíð Oddsson. Gat á sig blómum bætt.

Þegar sýnt var að Glitnir var að fara í þrot leituðu forráðamenn hans út um víðan völl eftir einhverjum leiðum til þess að bjarga bankanum.

Þeir reyndu meðal annars fyrir sér um hvort Kaupþing vildi kaupa starfsemi Glitnis á Norðurlöndunum. Sömuleiðis leituðu þeir eftir aðstoð frá Seðlabankanum og Landsbankanum.

Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans spurði í framhaldinu Geir H. Haarde forsætisráðherra hvernig tekið yrði í það að Landsbankinn setti fram hugmyndir um lausn á vandanum.

Geir svaraði því til að allar hugmyndir yrðu vel þegnar. Bankastjórar Landsbankans settu þá saman tillögu sem var send í Seðlabankann þar sem Davíð Oddsson og Geir Haarde sátu á fundi.

Í stuttu máli fólst tillagan í því að eftir ýmsar aðgerðir yrðu Landsbankinn og Glitnir sameinaðir undir nafni Landsbankans. Eignarhald hluthafa Landsbankans í hinum sameinaða banka yrði 40 prósent.

Við skýrslutöku hjá Rannsóknarnefnd Alþingis lýsti Davíð framhaldinu þannig að þeir Geir hafi skoðað tillögu Landsbankans og Geir kallað hana vitleysu.

Davíð sagði að svo hefði Halldór J. Kristjánsson hring til þess að frétta um viðbrögðin við tillögunni.

Davíð svaraði því til að hann gæti fengið ríkisstjórnina og bankastjórnina til þess að samþykkja hana með einu skilyrði.

Davíð sagði að Halldór hefði orðið mjög kátur og spurt hvað væri skilyrðið.

-Það er að ég komist í stjórn Blómavals.

-Er þetta svona vitlaust, spurði þá Halldór.

-Já þetta er svona vitlaus, sagði Davíð og lagði á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×