Viðskipti erlent

Auðugir Kínverjar hafna veisluboði frá Gates og Buffett

Tveir af ríkustu mönnum heimsins hafa boðið kínverskum auðmönum til veislu í Bejing. Töluverður fjöldi hinna auðugu Kínverja hafa hafnað þessu boði.

Það eru þeir Bill Gates stofnandi Microsoft og ofurfjárfestirinn Warren Buffett sem standa að boðinu en þeir hafa hleypt af stokkunum átaki til að fá auðugasta fólk heimsins til þess að gefa helming af auðæfum sínum til góðgerðarmála.

Þeir Gates og Buffett buðu 50 auðugum Kínverjum til veislu í Bejing síðar í mánuðinum þar sem kynna átti þetta átak. Viðbrögðin voru hinsvegar óvænt.

Margir Kínverjanna sögðu nei takk og töluverður fjöldi þeirra sendi inn fyrirspurn um hvort ætlunin væri að reyna að plokka helming af auði þeirra ef þeir tækju þátt í veislunni. Þeir Gates og Buffett neyddust því til að senda bréf til þeirra um að ekki væri um fjárkúgun að ræða, heldur aðeins kynningu á átakinu.

Mestu áhyggjur kínversku auðmannanna gengu út á að þeir ættu á hættu að missa virðingu í veislunni ef aðrir gestir gæfu meira en þeir til þessa átaks Gates og Buffetts.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×