Opinberar yfirheyrslur Jón Kaldal skrifar 30. janúar 2010 06:00 Þegar Ólafur Ragnar Grímsson ræddi við Jeremy Paxman í fréttaskýringaþættinum Newsnight í breska ríkissjónvarpinu í byrjun janúar, var ekki annað að skilja á forsetanum en Íslendingar gætu kennt Bretum sitthvað um framgang lýðræðislegra stjórnarhátta. Óneitanlega tók forsetinn þar hraustlega til orða og er reyndar ekki alveg víst að boðskapur hans þoli nána skoðun. Hitt er hins vegar öruggt að Íslendingar geta lært ýmislegt af Bretum. Í gær buðu þeir til dæmis upp á sérlega gagnlega kennslustund í opinni og upplýstri umræðu. Þetta var þegar breska Íraksnefndin fékk Tony Blair, fyrrverandi forsætiráðherra landsins, á sinn fund. Hlutverk Íraksnefndarinnar er í stuttu máli að rannsaka aðdraganda innrásarinnar í Írak og þann stríðsrekstur sem eftir fylgdi. Yfirlýstur tilgangur er að draga saman lærdóm sem hægt er að hafa til hliðsjónar ef svipaðar aðstæður koma upp í framtíðinni. Nefndin var skipuð síðasta sumar og hóf opinberar yfirheyrslur í nóvember. Fjöldi einstaklinga hefur þegar komið fyrir hana, þar á meðal ýmsir embættismenn og herforingjar. Yfirheyrslurnar eru fyrir opnum tjöldum og getur tiltekinn fjöldi almennings verið viðstaddur. Umfram allt eru þó samskipti nefndarinnar við gestina sjónvarpað beint út á netinu. Fyrir vikið gat gjörvöll heimsbyggðin, eða að minnsta kosti sá hluti hennar sem hefur netaðgang, horft á sex klukkustunda langa yfirheyrslu yfir Tony Blair í gær. Blair var ásamt George Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í forystu þeirra ríkja sem ákváðu að ráðast inn í Írak í trássi við alþjóðalög og ályktir Sameinuðu þjóðanna. Frá stríðsbyrjun árið 2003 hafa um eitt hundrað þúsund Írakar fallið. Mannfall innrásarliðsins nálgast fimm þúsund manns. Að vonum var eftirvæntingin yfir því sem Blair hafði að segja því mikil. Í andsvörum hans vottaði hins vegar hvorki fyrir vafa né eftirsjá. Ísland var meðal þeirra þjóða sem studdu opinberlega innrásina í Írak. Verður sú ákvörðun þáverandi ráðamanna ævarandi blettur á þjóðinni. Enn er langt frá því að upplýst hafi verið til fulls hvernig sú óhæfa gat átt sér stað. Er það sannarlega verðugt rannsóknarefni. En það er annar kapítuli. Opinberar yfirheyrslur bresku Íraksnefndarinnar eru áminning um hvernig rannsóknarnefnd Alþingis um hrun bankanna hefði getað hagað sínum störfum. Rannsóknarnefndin fékk fjölda manna og kvenna í viðtöl og skýrslutöku. Hún kaus að hafa þá fundi bakvið luktar dyr. Fór þar því miður forgörðum mikilvægt tækifæri til að færa opinbera umræðu til meiri þroska. Íraksnefndin fór fremur mjúkum höndum um Blair, nema þegar Sir Roderic Lyne var í hlutverki spyrjandans. Fyrir okkur Íslendinga verður fróðlegt að heyra hversu hart rannsóknarnefnd Alþingis gekk að mönnum í sínum yfirheyrslum. Tækifæri til þess að komast að því mun gefast þegar hljóðupptökur frá skýrslutökum rannsóknarnefndarinnar verða aðgengilegar innan skamms á Þjóðskjalasafninu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Rannsóknarskýrsla Alþingis Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Þegar Ólafur Ragnar Grímsson ræddi við Jeremy Paxman í fréttaskýringaþættinum Newsnight í breska ríkissjónvarpinu í byrjun janúar, var ekki annað að skilja á forsetanum en Íslendingar gætu kennt Bretum sitthvað um framgang lýðræðislegra stjórnarhátta. Óneitanlega tók forsetinn þar hraustlega til orða og er reyndar ekki alveg víst að boðskapur hans þoli nána skoðun. Hitt er hins vegar öruggt að Íslendingar geta lært ýmislegt af Bretum. Í gær buðu þeir til dæmis upp á sérlega gagnlega kennslustund í opinni og upplýstri umræðu. Þetta var þegar breska Íraksnefndin fékk Tony Blair, fyrrverandi forsætiráðherra landsins, á sinn fund. Hlutverk Íraksnefndarinnar er í stuttu máli að rannsaka aðdraganda innrásarinnar í Írak og þann stríðsrekstur sem eftir fylgdi. Yfirlýstur tilgangur er að draga saman lærdóm sem hægt er að hafa til hliðsjónar ef svipaðar aðstæður koma upp í framtíðinni. Nefndin var skipuð síðasta sumar og hóf opinberar yfirheyrslur í nóvember. Fjöldi einstaklinga hefur þegar komið fyrir hana, þar á meðal ýmsir embættismenn og herforingjar. Yfirheyrslurnar eru fyrir opnum tjöldum og getur tiltekinn fjöldi almennings verið viðstaddur. Umfram allt eru þó samskipti nefndarinnar við gestina sjónvarpað beint út á netinu. Fyrir vikið gat gjörvöll heimsbyggðin, eða að minnsta kosti sá hluti hennar sem hefur netaðgang, horft á sex klukkustunda langa yfirheyrslu yfir Tony Blair í gær. Blair var ásamt George Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í forystu þeirra ríkja sem ákváðu að ráðast inn í Írak í trássi við alþjóðalög og ályktir Sameinuðu þjóðanna. Frá stríðsbyrjun árið 2003 hafa um eitt hundrað þúsund Írakar fallið. Mannfall innrásarliðsins nálgast fimm þúsund manns. Að vonum var eftirvæntingin yfir því sem Blair hafði að segja því mikil. Í andsvörum hans vottaði hins vegar hvorki fyrir vafa né eftirsjá. Ísland var meðal þeirra þjóða sem studdu opinberlega innrásina í Írak. Verður sú ákvörðun þáverandi ráðamanna ævarandi blettur á þjóðinni. Enn er langt frá því að upplýst hafi verið til fulls hvernig sú óhæfa gat átt sér stað. Er það sannarlega verðugt rannsóknarefni. En það er annar kapítuli. Opinberar yfirheyrslur bresku Íraksnefndarinnar eru áminning um hvernig rannsóknarnefnd Alþingis um hrun bankanna hefði getað hagað sínum störfum. Rannsóknarnefndin fékk fjölda manna og kvenna í viðtöl og skýrslutöku. Hún kaus að hafa þá fundi bakvið luktar dyr. Fór þar því miður forgörðum mikilvægt tækifæri til að færa opinbera umræðu til meiri þroska. Íraksnefndin fór fremur mjúkum höndum um Blair, nema þegar Sir Roderic Lyne var í hlutverki spyrjandans. Fyrir okkur Íslendinga verður fróðlegt að heyra hversu hart rannsóknarnefnd Alþingis gekk að mönnum í sínum yfirheyrslum. Tækifæri til þess að komast að því mun gefast þegar hljóðupptökur frá skýrslutökum rannsóknarnefndarinnar verða aðgengilegar innan skamms á Þjóðskjalasafninu.