Fótbolti

Þóra kemur til greina sem besti markvörðurinn í sænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Björg Helgadóttir.
Þóra Björg Helgadóttir. Mynd/Stefán
Þóra Björg Helgadóttir, markvörður Svíþjóðarmeistara LdB FC Malmö, er ein af fjórum markvörðum sem koma til greina sem besti markvörður ársins í Svíþjóð en Þóra stóð sig frábærlega á sínu fyrsta ári með liðinu.

Þóra Björg fékk á sig aðeins 17 mörk í 21 leik með LdB FC Malmö á þessu tímabili en hún varði 81 prósent af þeim skotum sem á hana komu. Þóra var í fyrra valin besti markvörðurinn í norsku deildinni en þá spilaði hún með Kolbotn.

Hinar þrjár sem koma til greina sem markvörður ársins eru Kristin Hammarström hjá KIF Örebro, Hedvig Lindahl hjá Kopparbergs/Göteborg og Sofia Lundgren hjá Linköping.

Fimm liðsfélagar Þóru eru einnig tilnefndir þar af á liðið þrjá af fjórum leikmönnum sem eru tilnefndir sem besti miðjumaður ársins. Þóra er hinsvegar eini íslenski leikmaðurinn sem var tilnefndur.

Verðlaunin verða veitt á Fotbollsgalan sem fram fer í Malmö Arena 15. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×