Færeyski þingmaðurinn, Jenis av Rana, ætti að skammast sín að mati formanns Tjóðveldisflokksins, Högna Hoydal, en þetta skrifar hann í grein sem birtist á vefnum Vágaportalurinn í dag. Forskrift greinarinnar er:
„Verið hjartanlega velkomnar Jóhanna og Jónína."
Þar segir hann viðhorf Jenis ekki endurspegla viðhorf almennings í Færeyjum né pólitísk viðhorf en Jenis neitaði að sitja kvöldverð með hjónunum og taldi hann það beinlínis ögrun. Þessi viðhorf hans birtust á sama vef í gærkvöldi.
„Ég vil hinsvegar segja að það er mikill heiður að forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir ásamt frú Jónínu [Innsk. blm. Leósdóttir] sæki okkur heim," segir Högni í grein sinni.
Hann bendir svo á að Íslendingar séu ein sjálfstæðasta þjóð heims og taki færeyskum frændum sínum sem jafnokum.
„Því er það mótsagnakennt að einn stjórnmálamaður skuli mæta þjóðhöfðingja Íslands með persónulegum fordómum og afturhaldi," segir Högni í grein sinni.
Að lokum hvetur Högni fólk að taka afstöðu með Jóhönnu og Jónínu og bjóða þeim hjartanlega velkomnar til Færeyja.
Hér má nálgast grein Högna.