Innlent

Segir öskufokið það versta síðan í gosinu

Askan er vandamál.
Askan er vandamál.

Mikill öskubylur var undir Eyjafjöllum í gær. Ekkert hafði rignt um daginn og fóru vindhviður yfir 40 metra á sekúndu. Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, segir ekki hafa verið mögulegt að vera utandyra þegar hviðurnar voru sem mestar og fokið hafi verið það mikið að skyggni hafi farið undir 300 metra, en vind hafi lægt undir kvöld.

„Ástandið hefur ekki verið svona slæmt síðan í gosinu," segir Þorvaldur. „Svona þurrkar og vindar eru óvanalegir um hásumar. Þetta á eflaust eftir að angra okkur næstu árin."

Ólafur segir myndugt rósasafn í garðinum á Þorvaldseyri vera farið fyrir bí og rósirnar séu berstrípaðar og tættar eins og að hausti. Öllum skepnum hefur verið haldið innandyra í allt sumar en Ólafur segir ekki hafa komið annað til greina.

„Mér hefði ekki liðið vel að vita af kálfunum úti í storminum," segir hann. „Það er sandur í grasrótinni og mikið svifryk sem sest á grasið í sól og hita og það er skemmandi fyrir skepnurnar."

Nýbúið var að sá í 35 hektara land við bæinn sem er nú mikið fokið upp í storminum. „Það stendur bara moldarmökkur upp úr túninu. Hér er ekki fallegt um að litast," segir Ólafur. - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×