Erlent

Framkvæmdin orðin flóknari

Ríkisstjórnin í Sviss vill endurnýja tvíhliða samninga ríkisins við Evrópusambandið. Þeir eru orðnir tíu ára gamlir og renna út innan skamms.

Doris Leuthard, forseti Sviss, viðurkennir að það verði erfitt að semja við Evrópusambandið um þetta. Bæði hafi Evrópusambandið stækkað mjög þann áratug sem liðinn er síðan tvíhliðasamningurinn var gerður og svo hafi Lissabon-sáttmáli Evrópusambandsins, sem tók gildi á síðasta ári, breytt ýmsu.

Auk þess er flókið mál að fara í gegnum tuttugu stóra samninga og hundrað minni samninga sem í gildi eru milli Sviss og Evrópusambandsins, en með hverju árinu hefur framkvæmd og utanumhald allra þessara samninga orðið æ flóknara.

Leuthard minnir hins vegar á að Sviss er Evrópusambandinu mikilvægt. Evrópusambandsríkin eiga, næst á eftir Bandaríkjunum, meiri viðskipti við Sviss en öll önnur ríki heims. „Þess vegna megum við af heilbrigðu sjálfsöryggi reikna með hagkvæmri niðurstöðu," segir hún.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×