Íslenski boltinn

Björn Kristinn Björnsson: Við gerðum okkur erfitt fyrir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Björn Kristinn Björnsson, þjálfari Fylkis.
Björn Kristinn Björnsson, þjálfari Fylkis.
Björn Kristinn Björnsson þjálfari Fylkisstúlkna var að vonum ánægður eftir sigur liðs síns í Kaplakrika, en Fylkisstelpur unnu þar FH 4-2. „Ég er mjög ánægður að ná þessum stigum hérna í dag en við vorum vorum vægast sagt að gera okkur þetta erfitt fyrir, FH-liðið var einnig að spila mjög vel. Maður spilar ekki betur en andstæðingurinn leyfir og þær voru að spila vel. Við getum hinsvegar ekki verið annað en ánægð með að fá þrjú stig hér en það má gera betur."

Fylkisstelpurnar hófu leikinn strax á hárri pressu, þær gáfu FH-ingum engan tíma á boltann og uppskáru fljótlega þegar þær skoruðu á 13. mínútu. „Það var ætlunin í leiknum, pressa hátt og að láta bakverðina koma hátt upp, vera mjög agressív. Það hinsvegar er hættulegt, eins og sjá má þegar við fáum á okkur víti eftir góða sendingu og vorum full varkár eftir það."

Laufey Björnsdóttir, fyrirliði Fylkis setti stórglæsilegt mark, en hún fékk sendingu út fyrir teig og tók hann viðstöðulaust, óverjandi fyrir Birnu í marki FH-inga. „Það er alltaf gaman að sjá falleg mörk. Við hefðum getað skorað fleiri en það er ekki hægt að taka neitt af FH-ingum, þær voru frískar og hraðar og börðust virkilega vel," sagði Björn.

Næsti leikur Fylkisstúlkna er gegn Þór/KA heima, en þeim var spáð gott gengi fyrir tímabilið. „Það verður eins og allir aðrir leikir, afar erfiður. Þór/KA er náttúrulega með frábært lið, byggt á útlenskum og innlendum landsliðskonum og eru þeir því til alls líklegir. Þær fá hinsvegar ekkert ókeypis frá okkur," sagði Björn Kristinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×