„Þetta kom svolítið á óvart en ég var alltaf ótrúlega bjartsýnn," segir Vörður Ólafsson, húsasmiður, en hann kærði gjaldtöku Samtaka Iðnaðarins til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að iðnmálagjald stæðist ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.
Vörður kærði málið fyrir um fjórum árum til Mannréttindadómstólsins eftir að hann tapaði í Hæstarétti Íslands. Það var svo lögmaður hans Einar Hálfdánarson sem sá um málarekstur með þeim afleiðingum að iðnmálagjald var úrskurðað ólögmætt.
Iðnmálagjald er gjald upp á 0,08 prósent sem leggjast á allan iðnað í landinu. Gjöldin fara eftir umsvifum fyrirtækja. Tekjunum skal svo varið til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu.
Ástæðan fyrir því að Vörður kærði málið var vegna þess að Félag Húsasmíðameistara er ekki aðili að Samtökum Iðnaðarins, engu að síður er þeim gert að greiða prósentuna til samtakanna.
„Okkur fannst þetta ósanngjarnt," segir Vörður en Félag Húsasmíðameistara hefur stutt hann dyggilega í baráttunni en sjálfur var hann stjórnarmaður í félaginu í níu ár.
Vörður segist vera himinlifandi yfir niðurstöðunni á meðan Samtök Iðnaðarins er verulega ósátt.
Framkvæmdastjóri SI, Jón Steindór Valdimarsson, segir úrskurðinn bitna helst á nýsköpun í iðnaði.