Erlent

Engin sátt um landtökurnar

Með bros á vör Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á milli þeirra Benjamins Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmouds Abbas, forseta Palestínustjórnar.
Fréttablaðið/AP
Með bros á vör Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á milli þeirra Benjamins Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmouds Abbas, forseta Palestínustjórnar. Fréttablaðið/AP

Önnur umferð viðræðna Ísraela og Palestínumanna fór fram í borginni Sharm El-Sheikh í Egyptalandi í gær og stóð í tæpar tvær klukkustundir.

Ekki var að sjá að nein niðurstaða fengist um framkvæmdir á vegum eða í þágu ísraelskra landtökumanna, en Palestínumenn hafa hótað því að hætta viðræðum ef þær framkvæmdir hefjast á ný.

Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna, sagði að í væntanlegum viðræðum væri mikilvægast að byrja á að ræða legu væntanlegra landamæra ríkjanna tveggja, Ísraels og Palestínu.

„Ef þú vilt velja réttu leiðina, þá ættu landamærin að koma fyrst. Ef þú vilt ekki ná samkomulagi, þá skaltu velja einhverja aðra leið,“ sagði hann.

Mark Regev, talsmaður Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði hins vegar nauðsynlegt að Palestínumenn sýndu sveigjanleika.

„Ef væntingarnar eru þær að einungis Ísraelar eigi að sýna sveigjanleika þá er það ekki uppskrift að árangri.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×