Viðskipti erlent

Tekinn með allt niðrum sig

Forstjóri og stjórnendur fasteignafélags sem FL Group og Donald Trump tengdust eru sakaðir um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.
Forstjóri og stjórnendur fasteignafélags sem FL Group og Donald Trump tengdust eru sakaðir um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.

viðskipti Fyrrverandi fjármálastjóri bandaríska fasteignafyrirtækisins Bayrock Group telur að lán sem fyrirtækið tók hafi runnið í vasa Tevfiks Arif, forstjóra þess, og annarra stjórnenda.

Lánið hljóðaði upp á fimmtíu milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,5 milljarða íslenskra króna, á núvirði.

FL Group tók þátt í nokkrum fasteignaverkefnum með Bayrock Group í Bandaríkjunum árið 2007. Arif er viðskiptafélagi bandaríska auðjöfursins Donald Trump en tvö fasteignaverkefnanna báru nafn hans. Verkefnunum hafði átt að vera lokið á þessu ári.

Forstjóri Bayrock Group er grunaður um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Hann var handtekinn í Tyrklandi fyrir um hálfum mánuði og er grunaður um að hafa stýrt vændishring fyrir aðra auðjöfra.

Handtakan fór fram um borð í skútu við Tyrkland en kynsvall var þar í fullum gangi þegar lögreglan braust um borð. Bandaríska dagblaðið New York Daily News sagði Arif hafa í eiginlegum skilningi verið tekinn með allt niðrum sig. Vændiskonurnar voru frá Rússlandi og Úkraínu og nokkrar voru undir átján ára aldri, að sögn bandarískra fjölmiðla. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×