Innlent

Verðbólgan búin - verðhjöðnun tekin við

Hafsteinn Hauksson skrifar

Hin mikla verðbólga sem varð landlæg eftir hrun krónunnar er nú búin í bili, segir sérfræðingur í greiningardeild. Verðbólga mælist nú 5,7 prósent á ársgrundvelli og hefur ekki mælst lægri síðan í góðærinu 2007.

Hagstofan greindi frá því í morgun að verðlag lækkaði um þriðjung úr prósenti í júní frá því í maí. Verðhjöðnun í júnímánuði er afar óalgeng, en leita þarf aftur til ársins 1996 til að finna lækkun verðlags í þeim mánuði. Ársverðbólgan er því 5,7 prósent og hefur ekki verið lægri síðan í nóvember 2007, þegar hún mældist 5,2 prósent.

Munar hér mest um að bensínverð lækkaði um tæp 6% vegna styrkingar krónunnar, lækkandi heimsmarkaðsverðs og verðstríðs olíufélaganna. Þá lækkaði verð matar og drykkjarvöru um eitt og hálft prósent vegna gengisbreytinganna, en sú lækkun vegur þungt í neysluvísitölunni.

Þórhallur Ásbjörnsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, gerir ráð fyrir að verðlag haldi áfram að lækka í júlí vegna áhrifa af útsölum. Viðvarandi verðhjöðnun getur reynst efnahagslífi ríkja afar skeinuhætt, en Þórhallur segir þó of snemmt að spá fyrir um hvort Íslandi stafi hætta af slíku ástandi, ekki síst því svigrúm seðlabankans til vaxtalækkana er nokkuð. Hann segir minni verðbólguþrýsting nú hjálpa bankanum að lækka stýrivexti.

Sé tekið mið af verðþróun undanfarna þrjá mánuði verður ársverðbólga 1,3 prósent. Ef fram fer sem horfir er það vel undir verðbólgumarkmiði seðlabankans, 2,5 prósent á ári, en verðbólgan hefur ekki verið undir því marki síðan árið 2004.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×