Haukur Leósson, endurskoðandi Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemdir við risastyrki FL Group og Landsbankans til flokksins við endurskoðun ársreikningsins 2006. Þær athugasemdir virti meðal annars Kjartan Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri flokksins, að vettugi.
Haukur hefur ekki viljað tjá sig um málið og borið við trúnaði sem endurskoðandi en heimildir fréttastofu herma að hann hafi gert athugasemdir við risastyrkina tvo við Kjartan Gunnarsson þegar þeir fóru yfir ársreikninginn. Þær athugasemdir voru hins vegar hundsaðar.
Kjartan Gunnarsson hefur þráfaldlega neitað því að hafa yfirhöfuð vitað af styrkjunum. Heimildir fréttastofu herma hins vegar að hann hafi allan tímann vitað af styrkjunum og gengið frá ársreikningi þar sem þessir styrkir báru á góma.
Haukur Leósson er sennilega frægastur fyrir að hafa verið gert að hætta sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur haustið 2007 þegar REI-málið stóð sem hæst.