Innlent

Dagur B varaformaður - Jóhanna fékk 97% atkvæða

Dagur B. Eggertsson var kosinn varaformaður Samfylkingarinnar fyrir stundu eftir sig á Árna Páli Árnasyni þingmanni. Dagur hlaut 65,6% en Árni Páll 33,9% greiddra atvkæða á landsfundi flokksins. Dagur sagði að flokkurinn myndi sækja um aðild að ESB að loknum kosningum og myndi bjóða til samstarfs með það að leiðarljósi. Hann sagði Samfylkinguna vera eina flokkinn með plan. Jóhanna Sigurðardóttir var kosinn formaður Samfylkingarinnar með 97% greiddra atkvæða.

Árni Páll sagði að það væru forréttindi að fá að taka þátt í að leiða þennan flokk og að njóta stuðnings flokksmanna. Hann sagði að ef hann hefði ekki sjálfur verið í framboði hefði hann kosið Dag B. Eggertsson. „Dagur er öflugur og góður maður og vel til þessa verka kominn. Samfylkingin verður ekki svikin af Degi B. Eggertssyni."

Jóhanna þakkaði það traust sem henni er sýnt og þakkaði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur það óeigingjarna starf sem hún hefur unnið í þágu hreyfingarinnar.

Jóhanna sagði að andstæðingar sínir héldu því fram að hún væri formaður til bráðbirgða. Það væri ekki rétt og hún væri formaður til framtíðar. Hún minnti fundinn á að amma sín hefði tekið þátt í stjórnmálum fram á síðasta dag. En hún varð 100 ára gömul.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×