Íslenski boltinn

Wake: Frábær auglýsing fyrir kvennaboltann

Ómar Þorgeirsson skrifar
Frá leik Breiðabliks og Vals síðasta sumar.
Frá leik Breiðabliks og Vals síðasta sumar. Mynd/Rósa

Gary Wake, þjálfari Breiðabliks, var stoltur af stúlkunum sínum eftir 1-1 jafnteflið gegn Íslandsmeisturum Vals í kvöld. Hann hrósaði liði sínu fyrir frábæran leik, bæði í vörn og sókn.

„Mér fannst við klárlega vera betra liðið þegar yfir heildina er litið og við gátum kannski kennt okkur sjálfum um að hafa ekki nýtt færin betur til þess að taka stigin þrjú. Ég er annars mjög stoltur af mínu liði. Þetta er ungt lið og stelpurnar eru að leggja sig mikið fram og eru að spila sem lið, bæði í vörn og sókn. Það var boðið upp á skemmtilegan sóknarbolta í kvöld og leikurinn var í raun frábær auglýsing fyrir kvennaboltann," segir Wake.

Wake segir kvennadeildina vera meira spennandi núna í sumar en í mörg ár og telur mörg lið geta blandað sér í toppbaráttuna.

„Deildin í sumar er gríðarlega erfið en skemmtileg og liðin eru að reita stig af hvort öðru. Þetta snýst um stöðugleika og við munum reyna að fylgja Val eftir eins mikið og við getum. Síðan eru náttúrulega fleiri góð lið í deildinni eins og Stjarnan, Fylkir og Þór/KA sem eru mjög erfiðir andstæðingar. Þetta verður mjög spennandi sumar," segir Wake að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×