Fótbolti

Benitez: Það var ekki áhætta að láta Gerrard spila

Ómar Þorgeirsson skrifar
Rafa Benitez.
Rafa Benitez. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Rafa Benitez hjá Liverpool kveðst ekki hafa verið að tefla að tvísýnu með að nota fyrirliðinn Steven Gerrard í byrjunarliði Liverpool í 1-2 tapleiknum gegn Lyon í Meistaradeildinni í kvöld.

Gerrard var nýbúinn að jafna sig af meiðslum og þurfti svo að yfirgefa völlinn á 25. mínútu og óvíst er hvort hann verði klár í slaginn þegar Liverpool mætir Manchester United á næstkomandi sunnudag.

„Gerrard vildi sjálfur spila leikinn og sjúkraþjálfarar voru búnir að gefa honum grænt ljós á að vera með. Hann fann hins vegar fyrir því að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera og því tókum við hann útaf um leið. Við sjáum til hvað gerist núna," sagði Benitez í viðtölum í leikslok í kvöld en Liverpool var að tapa sínum fjórða leik í röð og er nú í slæmum málum í riðli sínum í Meistaradeildinni.

„Við höfum lent í stöðu sem þessarri áður og náð að vinna okkur út úr henni og það er það sem við þurfum að gera núna. Við þurfum að vera tilbúnir í næsta leik og megum ekki misstíga okkur og ég er sannfærður um að við höfum það sem þarf til þess að komast áfram. Þetta var erfiður leikur í kvöld en það hjálpaði vissuleg ekki til að missa Glen Johnson í meiðsli skömmu fyrir leik og Steven Gerrard og Martin Kelly í meiðsli í leiknum sjálfum," sagði Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×