Körfubolti

Mesti bikarmeistarablúsinn í átta ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn fögnuðu bikarmeistaratitlinum vel og lengi,.
Stjörnumenn fögnuðu bikarmeistaratitlinum vel og lengi,. Mynd/Vilhelm

Bikarmeistarar Stjörnunnar hafa ekki unnið leik í Iceland Express deild karla í körfubolta síðan að þeir lyftu bikarnum í Laugardalshöllinni 15. febrúar síðastliðinn. Stjarnan tapaði þriðja leiknum í röð þegar þeir sóttu nýliða Breiðabliks heim í Smárann í gær en áður hafði liðið tapað fyrir KR og Keflavík.

Þetta er lengsta taphrina bikarmeistara eftir bikarúrslitaleik síðan að ÍR-ingar töpuðu þremur síðustu leikjum sínum árið 2001 eftir að hafa unnið bikarinn í fyrsta sinn í sögu félagsins. ÍR komst ekki í úrslitakeppnina og spilaði því ekki fleiri leiki á tímabilinu og Stjarnan setur því nýtt óvinsælt met tapi þeir fjórða leiknum í röð þegar þeir fá Snæfell í heimsókn á fimmtudagskvöld.

ÍR-ingar misstu fyrir vikið af úrslitakeppninni en fyrir bikarúrslitaleikinn 2001 voru Breiðhyltingar í 8. til 9. sæti, með jafnmörg stig og Skallagrímur en með verri árangur í innbyrðisviðureignum. Fyrsti leikur ÍR eftir bikarúrslitin var síðan á móti Skallagrími og tapaði ÍR honum með aðeins tveimur stigum á heimavelli sínum í Seljaskóla.

Frá því að bikarúrslitaleikurinn var færður inn á mitt tímabil árið 1993 hafa fjórir bikarmeistarar tapað tveimur fyrstu leikjum sínum eftir úrslitaleikinn. Auk ÍR (2001) og Stjörnunnar (2009) þá töpuðu Grindvíkingar fyrstu tveimur leikjum sínum eftir að þeir unnu bikarinn bæði 2000 og 2006.

Lið ÍR 2001 og Stjörnunnar í dag eiga líka það sameiginlegt að Ólafur Jónas Sigurðsson spilaði með báðum þessum liðum. Það er þó ekki að kenna honum um ófarir liðanna því í báðum tilfellum hefur hann hækkað framlag sitt eftir bikarúrslitaleikinn.

Tímabilið 2000-01 þá var Ólafur Jónas með 4,0 stig og 1,9 stoðsendingar að meðaltali í 18 leikjum fyrir bikarúrslit en 11,3 stig og 5,0 stoðsendingar að meðaltali í þremur leikjum liðsins eftir að bikarmeistaratitilinn var í höfn. Í vetur var Ólafur með 5,1 stig að meðaltali fyrir bikarúrslit en hefur skorað 10,7 stig að meðaltali í síðustu þremur leikjum Stjörnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×