Innlent

Hart var lagt að mér að hætta

Dr. Sigríður Benediktsdóttir er hagfræðingur í rannsóknarnefnd Alþingis. Hún telur að enn sé samstarfsgrundvöllur í nefndinni.fréttablaðið/pjetur
Dr. Sigríður Benediktsdóttir er hagfræðingur í rannsóknarnefnd Alþingis. Hún telur að enn sé samstarfsgrundvöllur í nefndinni.fréttablaðið/pjetur

„Ég staðfesti orð Jóns [Daníelssonar hagfræðings] um að það hafi verið lagt hart að mér að segja af mér," segir Sigríður Benediktsdóttir, nefndarmaður í rannsóknarnefnd Alþingis.

Jón sagði í samtali við Eyjuna.is í gær að ekki væri rétt, sem haft var eftir Páli Hreinssyni, formanni rannsóknarnefndarinnar, í Fréttablaðinu í gær, að ekki hefði verið lagt að Sigríði að hætta í nefndinni, heldur hefði afsögn hennar verið rædd sem einn möguleiki af mörgum, færi svo að hún yrði metin vanhæf. Jón rifjaði upp að Sigríður hefði sagt sér að nefndarmennirnir tveir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, hefðu lagt hart að sér að víkja.

Umræða um vanhæfi Sigríðar hófst eftir að Jónas Friðrik Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, skrifaði formanni nefndarinnar og sagði Sigríði ekki lengur treystandi eftir að hún sagðist telja að bankahrunið mætti rekja meðal annars til andvaraleysis eftirlitsstofnana.

Jónas telur að þessar yfirlýsingar byggi ekki á staðreyndum, heldur á „tilfinningum, hugsanlega lituðum af ómálefnalegum fréttaflutningi fjölmiðla og viðhorfum ákveðinna stjórnmálamanna".

Sigríður telur að enn sé samstarfsgrundvöllur í rannsóknarnefnd Alþingis, þrátt fyrir allt sem gengið hefur á. Ekki náðist í Pál Hreinsson í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×