Enski boltinn

Van der Sar: Hætti ekki fyrr en við höfum unnið Meistaradeildina aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edwin van der Sar hefur undanfarið þurft að fylgjast með upp í stúku.
Edwin van der Sar hefur undanfarið þurft að fylgjast með upp í stúku. Mynd/AFP

Edwin van der Sar segist að hann vilji standa í marki Manchester United þar til að félagið vinni Meistaradeildina á nýjan leik. Van der Sar verður 39 ára gamall í næsta mánuði en hann hefur ekkert leikið með United-liðinu síðan að hann meiddist á undirbúningstímabilinu.

Ben Foster hefur staðið í marki Manchester United síðan á Van der Sar meiddist en Hollendingurinn hefur sett stefnuna á að snú aftur á móti Bolton 17. október næstkomandi.

Van der Sar hefur fundið það í þessum meiðslum að hann er alls ekki tilbúinn að setja skónna upp á hilluna og er jafnvel að íhuga það að gefa aftur kost á sér í hollenska landsliðið. Það þykir því mjög líklegt að hann skrifi fljótlega undir nýjan samning til ársins 2011.

„Ég hef engan áhuga á því að hætta strax. Í lok sumarfrísins þá gat ég ekki beðið eftir því að fara aftur á æfingavöllinn. Ég ætla að vinna Meistaradeildina aftur og það skiptir engu máli þótt að ég hafi unnið hana áður," sagði Van der Sar og hann er sáttur við frammistöðu Foster.

Van der Sar hefur ekki áhyggjur af kaupgleði Real Madrid á mörgum af bestu leikmönnum heims.

„Ég hef ekki miklar áhyggjur af Real Madrid. Þetta snýst allt um liðsheildina og ellefu útgáfur af Cristiano Ronaldo myndu aldrei ná árangri. Það voru þrjú ensk lið í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra og allir vita að enska úrvalsdeildin er besta deild í heimi," sagði Van der Sar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×