Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Erum lið sem erfitt er að vinna

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

Íslenska kvennalandsliðið vann í kvöld glæsilegan sigur á því enska í æfingaleik sem fram fór í Colchester á Englandi. Ísland vann 2-0 með mörkum frá Hólmfríði Magnúsdóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur.

„Við erum virkilega ánægð með þennan leik. Liðið var mjög vel skipulagt og varðist vel. England var meira með boltann, við gáfum þeim eftir ákveðið svæði og sóttum svo hratt á þær. Það er frábært að vinna 2-0 og ég held að Ísland hafi aldrei unnið England áður," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, eftir leik.

„Fyrir utan þessi mörk þá sköpuðum við okkur alveg önnur færi svo leikskipulagið gekk algjörlega. Bæði mörkin voru eftir skyndisóknir frá okkur. Hólmfríður kom okkur yfir í fyrri hálfleik eftir að hafa sloppið í gegn. Síðan sendi Dóra María boltann á Margréti í seinni hálfleik og hún kláraði færið vel," sagði Sigurður en Margrét Lára var að skora sitt fyrsta landsliðsmark á árinu.

„Margrét spilaði frábærlega í þessum leik fyrir okkur. Hún var ein frammi en vann virkilega vel og ég var ánægður með hana. Það er gaman að sjá að hún er aftur búin að finna sitt form og gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hún spili vel áfram."

Íslenska liðið leikur á sunnudag annan æfingaleik ytra en þá gegn Danmörku. „Danska liðið er hörkugott og mjög vel spilandi. Ég á eftir að fara betur yfir með liðinu hvernig sá leikur verður lagður upp. Við erum fyrst og fremst að reyna að æfa leikskipulag og þá fyrst og fremst varnarleikinn. Við erum með lið sem þarf að verjast vel og það er áhersluatriði í hverjum leik að halda hreinu. Mér finnst við vera orðið lið sem er virkilega erfitt að vinna," sagði Sigurður Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×