Sport

Bræðurnir unnu fimm af sex gullverðlaunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Kristmannsson úr Gerplu vann fjögur gull og þrjú silfur á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum.
Viktor Kristmannsson úr Gerplu vann fjögur gull og þrjú silfur á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum. Mynd/Vilhelm

Viktor og Róbert Kristmannsson úr Gerplu unnu fimm af sex gullum í boði í keppni á áhöldum á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem fram lauk í Hafnarfirði í dag. Thelma Rut Hermannsdóttir úr Gerplu vann þrenn gull hjá stelpunum.

Viktor Kristmannsson fylgdi eftir sigri í fjölþrautinni í gær með því að vinna gull á bogahesti, í hringjum og á tvíslá í dag. Viktor vann einnig þrjú silfur og var því í efstu tveimur sætunum í öllum sjö greinunum á þessu Íslandsmóti.

Viktor varð einnig í öðru sæti í gólfæfingum, í stökki og á svifrá. Í tveimur síðarnefndu greinunum vann bróðir hans Róbert gullið. Róbert náði að auki bronsverðlaunum í gólfæfingum.

Viktor og Dýri Kristjánsson fengu báðir gull fyrir æfingar á hringjum en þeir urðu þar nákvæmlega jafnir.

Eina gullið sem ekki fór til þeirra bræðra, Viktors og Róberts, var í keppni í gólfæfingum en þar varð Íslandsmeistari Ólafur Garðar Gunnarsson en Ólafur vann einnig eitt silfur og þrjú brons í dag.

Thelma Rut Hermannsdóttir úr Gerplu vann þrefaldan sigur í kvennaflokki í keppni á áhöldum í dag. Hún varð Íslandsmeistari í stökki, á tvíslá og á gólfi. Thelma varð einnig í þriðja sæti á jafnvægisslá þar sem Tinna Óðinsdóttir úr Gerplu varð Íslandsmeistari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×