Innlent

Vilja Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórnarandstöðu

Samfylkingin vill fleiri konur í lykilstöður, að ríkið eigi ráðandi hlut í einum banka, fækka ráðuneytum og Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórnarandstöðu eftir kosningar. Þetta kom fram í stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur nýs formanns flokksins nú síðdegis. Tillaga um að skipta tjóni vegna verðbólgu milli skuldara og lánveitenda var samþykkt.

„Hagsmunir okkar og hugsjónir snúast um að sækja fram, til meiri jafnaðar, sanngirni og réttlætis fyrir okkar fólk.Stefna okkar er skýr við viljum innsigla sáttmála við þjóðina um ný gildi á traustum grunni jafnaðarstefnunnar," sagði Jóhanna í ræðu sinni.

„Í fyrsta lagi ætlum við að tryggja að velferðarsamfélagið virki í þágu allra þjóðfélagshópa. Í öðru lagi viljum við treysta stöðugleika og grundvöll atvinnu- og efnahagslífsins á Íslandi og í þriðja lagi stefnum við að því að íslenskur almenningur og atvinnulífið fái notið sambærilegra kjara og þekkjast hjá helstu viðskiptalöndum okkar -með því að ganga til samninga um aðild að Evrópusambandinu."

Jóhanna sagði að Samfylkingin vilji skýrar leikreglur og auka gegnsæið í þjóðfélaginu til að bæta siðferðið.

„Við viljum jafnræði á öllum sviðum, við viljum auka áhrif launafólks í atvinnulífinu, við viljum standa vörð um kjör lífeyrisþega og láglaunafólks, við viljum auka þátttöku allra þjóðfélagshópa í mótun samfélagsins, við viljum að Íslendingar taki þátt í samfélagi þjóðanna á jafnréttisgrundvelli. Við viljum taka þátt í myndun nýrrar ríkisstjórnar á grundvelli nútímalegrar jafnaðarstefnu. Það er besta leiðin áfram."

Hægt er að skoða ræðu Jóhönnu í heild sinni hér að neðan.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×