Íslenski boltinn

Sandra Sif tryggði Blikum annað sætið með marki í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir úr Breiðablik og Anna Kristjánsdóttir úr Stjörnunni berjast um boltann í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir úr Breiðablik og Anna Kristjánsdóttir úr Stjörnunni berjast um boltann í kvöld. Mynd/Stefán

Breiðablik komst upp í 2. sætið í Pepsi-deild og hafði sætaskipti við Stjörnuna eftir 2-1 sigur í innbyrðisleik liðanna í Garðabænum í kvöld. Liðin eru með jafnmörg stig en Blikar hafa örlítið betri markatölu. Sandra Sif Magnúsdóttir tryggði Breiðabliki sigurinn í uppbótartíma með sínu öðru marki í leiknum.

Leikur liðanna í kvöld var mikill baráttuleikur þar sem stelpurnar létu vel finna fyrir sér. Stjarnan gerði vel í að jafna leikinn en Blikar sóttu sigurinn í blálokin eða þegar tvær mínútum voru liðnar af uppbótartíma.

Sandra Sif Magnúsdóttir skoraði fyrra mark Blika á 27. mínútu þegar hún átti lúmska fyrirgjöf sem skoppaði rétt fyrir framan Söndru markvörð og sigldi síðan í fjærhornið. Nafna hennar Sigurðardóttir í Stjörnumarkinu átti þarna að gera betur.

Sjö mínútum fyrir leikslok nýtti Inga Birna Friðjónsdóttir varnarmistök Ernu Bjarkar Sigurðardóttur sem missti til hennar boltann og endaði síðan á því að brjóta á henni innan vítateigs. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.

Sigurmark Söndru Sifar kom á 92. mínútu, aftur fékk hún boltann lengst utan af kanti og þessu sinni hitti hún boltann vel og hann fór yfir Söndru í markinu og upp í þaknetið. Fallegt mark en Sandra stóð of framarlega sem nafna hennar nýtti sér.

Tveir aðrir leikir fóru fram í deildinni í kvöld.

Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði fernu í 8-0 sigri Vals á ÍR. Katrín Jónsdóttir, Sif Atladóttir og Margrét Magnúsdóttir skoruðu eitt mark hver og eitt markanna var sjálfsmark.

Fylkir og Afturelding/Fjölnir gerðu 2-2 jafntefli þar sem gestirnir jöfnuðu tvisvar þar á meðal tryggði Lára Kristín Pedersen sínu liði stig í lokin. Danka Podovac og Ruth Þórðar Þórðardóttir skoruðu fyrir Fylki en Sigríður Þóra Birgisdóttir jafnaði metin í fyrra skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×