Sport

Hrafnhildur sú eina sem bætti sig í Tyrklandi í morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski hópurinn á EM í Tyrklandi.
Íslenski hópurinn á EM í Tyrklandi. Mynd/Ragnar Marteinsson
Íslensku keppendurnir hafa lokið keppni á fyrsta mótsdegi á EM í stuttri laug sem fram fer í Istanbul í Tyrklandi. Fjórir íslenskir sundmenn syntu í undanrásum í dag en enginn þeirra komast áfram í úrslitin seinna í dag.

Hrafnhildur Lútersdóttir, SH, byrjaði vel og bætti sig í 50 metra bringusundi. Hrafnhildur endaði í 29. sæti af 53 á tímanum 31,49 sekúndum sem er aðeins 23/100 frá Íslandsmeti Erlu Daggar Haraldsdóttur úr ÍRB.

Sindri Þór Jakobsson úr ÍRB varð í 38. sæti af 46 í 100 metra flugsundi en hann synti á 53,69 sekúndum sem er 1/10 úr sekúndu frá hans besta tíma.

Hrafnhildur synti síðan aftur í 200 metra fjórsundi þar sem hún var í riðli með bestu fjórsundkonum Evrópu. Hrafnhildur fékk fína keppni og náði 28. besta tíma, 2:16,97 sem er rúmri sek. frá hennar besta tíma.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH og Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR syntu síðan í 100 metra skriðsundi. Ingibjörg endaði í 55. sæti á 56,87 sekúndum sem er um sekúndu frá hennar besta og Ragnheiður endaði í 36. sæti en hún kom í mark á 55,10 eða 34/100 frá Íslandsmetinu sem hún setti á ÍM25 um daginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×