Fastir pennar

Hver á að borga brúsann?

Þorsteinn Pálsson skrifar

Umræður um kostnaðargreiðslur Landsvirkjunar til sveitarfélaga sem liggja að Þjórsá hafa verið sérkennilegar í meira lagi. Þær sýna vel hvernig ómálefnalegar umræður geta leitt menn í blindgötu.

Óumdeilt er að sveitarfélög hafa mikinn kostnað af skipulagsvinnu þegar stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun hafa hug á framkvæmdum. Spurningin er: Hver á að bera þann kostnað.

Vel má vera að gildandi lagaákvæði séu að einhverju leyti óskýr um þetta efni. Ekki verður þó séð að þau girði fyrir að þeir sem áhuga hafa á stórframkvæmdum greiði fyrir kostnað sem fellur utan við almenna skipulagsvinnu í viðkomandi sveitarfélögum.

Pólitískir andstæðingar virkjana í neðri hluta Þjórsár hafa hins vegar snúið umræðunni á þann veg að látið er í veðri vaka að slíkar kostnaðargreiðslur jafnist á við mútur. Tilgangurinn er trúlega tvíþættur; annars vegar að grafa undan trausti og hins vegar að búa til tafaleiki í stjórnkerfinu.

Hin hliðin á þessum óábyrga málflutningi er sú að almennir útsvarsgreiðendur verða þá að standa undir þeim aukakostnaði sem af slíkum framkvæmdum hljótast. Það er bæði ósanngjarnt og óskynsamlegt.

Engin sanngirni er í öðru en að orkufyrirtækin greiði allan kostnað sveitarfélaga af þessu tagi. Þó að þessar greiðslur séu ekki hátt hlutfall af virkjanakostnaði væri óskynsamlegt að leysa fyrirtækin undan þeirri byrði.

Það er í þágu náttúruverndar að allur kostnaður við virkjanir komi fram hjá orkufyrirtækjunum sjálfum. Það er forsenda fyrir því að unnt sé að meta kostnað á móti ávinningi. Í alla staði er eðlilegra að þessi kostnaður lendi á kaupendum raforkunnar en skattgreiðendum.

Verndun og nýting náttúruauðlindanna er mikil jafnvægislist. Sú umræða þarf að fara fram með gildum rökum á báða bóga. Í þessu tilviki hefur verið þyrlað upp moldryki til að villa mönnum sýn. Það skaðar heilbrigða umræðu.

ÁHRIFAVALD OG ÁHRIFALEYSI

Við myndun núverandi ríkisstjórnar í febrúar voru skipaðir tveir ráðherrar utan við þingflokka ríkisstjórnarinnar. Þó að utanþingsráðherrar hafi áður setið í ríkisstjórnum var þetta nýmæli að því leyti að hvorugur þessara ráðherra virtist hafa virk pólitísk tengsl eða sérstakt bakland í samfélaginu.

Hefur þetta gefist vel eða illa? Segja má að reynslan sé ekki slæm. Hitt verður heldur ekki sagt að þessi skipan mála hafi orðið til bóta. Um allar pólitískar ákvarðanir sem einhverju skipta eru þessir ráðherrar háðir ákvörðunum stjórnarflokkanna. Í reynd sýnast þeir því vera eins konar millistig milli stjórnmálamanna og embættismanna.

Skipun utanþingsráðherranna hefur um leið dregið athygli að þeim veruleika að með fjölgun ráðherra við ríkisstjórnarborðið hefur þeim fækkað sem hafa þar raunveruleg pólitísk áhrif. Þetta hefur verið að gerast á tveimur áratugum og einu gildir hvaða flokkar eiga í hlut.

Í sumum ríkisstjórnum síðustu ára hafa einungis flokksformennirnir verið með raunverulegt áhrifavald ráðherra. Í núverandi stjórn sýnast bæði heilbrigðisráðherrann og utanríkisráðherrann fylla þennan flokk. Það þýðir að átta ráðherrar standa utan við hann.

Af þessari þróun má draga þá ályktun að tími sé kominn á róttæka uppstokkun á skipulagi stjórnarráðsins. Vel gæti farið á því að ákveða í stjórnarskrá að ráðherrar gætu ekki verið fleiri en átta og ekki færri en fjórir.

Hvenær á að semja?

Dómsmálaráðherra kallaði í vikunni eftir þverpólitísku samstarfi um fjármál ráðuneytisins. Þetta ákall varpar ljósi á þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur enn ekki komið neinu af stærri málum sínum fram án meiri eða minni aðstoðar utan frá.

Ástæðan er ekki tæpur meirihluti. Miklu fremur innbyrðis veikleikar af ýmsum toga. Við slíkar aðstæður eiga stjórnarandstöðuflokkar yfirleitt tveggja kosta völ: Annar er sá að láta stjórnarflokkana engjast í klípunni. Hinn er sá að nota tækifærið til að ná áhrifum og knýja fram breytingar á stjórnarstefnunni.

Báðir þessir kostir geta verið fyllilega málefnalegir. Sjálfstæðisflokkurinn notaði fyrri kostinn í stjórnarskrármálinu með árangri. Hann notaði síðari kostinn í Icesave-málinu og styrkti stöðu sína til muna. Í því máli tapaði Framsóknarflokkurinn hins vegar frumkvæðisstöðu fyrir þá sök að hann var ekki tilbúinn að semja þegar árangur lá á borðinu.

Hvorn kostinn velja stjórnarandstöðuflokkarnir þegar þeir svara kalli dómsmálaráðherrans? Hér verður engum getum að því leitt. Svari þeir jákvætt hljóta þeir að gera kröfur um aðild að ríkisfjármálastefnunni í heild. Með því gætu þeir komið sér í þá stöðu að gera hvort tveggja í senn að sýna ábyrgð og hafa áhrif.

Komi sú staða upp eru aftur á móti allar líkur á að formenn stjórnarflokkanna taki fram fyrir hendurnar á dómsmálaráðherranum og segi: Hingað og ekki lengra. Niðurstaðan er sú að útspil dómsmálaráðherrans hefur í raun ekkert pólitískt gildi. Það er í besta falli veikburða tilraun til að fá frest á að horfast í augu við raunveruleikann. Það sýnir líka hversu mikilvægt er að ráðherrar hafi marktækt pólitískt umboð.






×