Fótbolti

Liverpool er eins og gufuvaltari

Nordic Photos/Getty Images

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Johan Cruyff segir að Liverpool sé það lið sem enginn vill mæta í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir að liðið malaði Real Madrid og Manchester United í síðustu viku.

"Liverpool breyttist í gufuvaltara á móti Real Madrid og þeir sem óttuðust að mæta Manchester United í Meistaradeildinni áður, óska þess nú að þeir mæti ekki Liverpool," sagði fyrrum Barcelona leikmaðurinn.

"Liverpool er án nokkurs vafa liðið sem enginn vill mæta eftir að það malaði Real og United," sagði Cruyff. Hann segir þó að gamla liðið hans í Katalóníu óttist ekkert lið í keppninni.

"Barcelona getur unnið hvaða lið sem er en ég er viss um að liðið hefur tekið eftir því sem Liverpool er að gera. Sigrar Liverpool á dögunum voru sannfærandi, en ólíkir. Á móti Real sóttu þeir stíft og pressuðu, en á móti Manchester spiluðu þeir hörkuvörn og leikurinn sveiflaðist á þeirra band þegar Vidic var rekinn af velli og þeir skoruðu úr aukaspyrnunni," sagði Hollendingurinn.

Á föstudaginn kemur í ljós hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en í pottinum eru Liverpool, Manchester United, Arsenal, Chelsea, Bayern Munich, Villarreal, Porto og Barcelona.

Leikirnir í næstu umferð fara fram dagana 7.-8. apríl og 14.-15. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×