13 danskir og 25 bandarískir bankar hafa horfið af sjónarsviðinu á árinu. Óttast er að fleiri séu í hættu á nýju ári.
Fjármálakreppan hefur heldur betur tekið til í danska bankageiranum í ár. 13 fjármálastofnanir misstu sjálfstæði sitt á árinu og óttast er að það sé aðeins byrjunin á því sem koma skal. Um 140 fjármálastofnanir eru í Danmörku í dag en talið er líklegt að smæstu stofnanirnar, sem eru með 5 til 10 starfsmenn, sjái sig knúnar til að sameinast vegna strangari lagasetningu um fjármálastofnanir. Þá er einnig talið að lánsfjárkrísan verði ekki til að auðvelda sölu eða sameiningaráform á fjármálastofnunum, líkt og FIH Erhversbank, sem er í eigu íslenska ríkisins. Því gæti komið upp sú staða að fleiri bankar muni falla.
Í Bandaríkjunum hafa 25 bankar fallið á árinu. Um 15 ár eru síðan yfirvöld þar í landi hafa lokað jafn mörgum bönkum. Fall Lehman Brothers í september síðastliðnum er talið hafa valdið dómínóáhrifum á fjármálastofnanir víða um heim, m.a. hér á landi. Yfirvöld óttast þá að 200 bankar til viðbótar séu í hættu og þurfi aðstoð úr hjálparsjóðnum sem settur var á stofn í september sl.
Í upphafi var sjóðurinn 700 milljarðar en nú eru 350 milljarðar eftir. Haft hefur verið eftir þingmönnum að ekki verði lánað úr sjóðnum nema að trygging fáist fyrir því að féð verði notað til útlána.